Napoli vill semja við Zlatan

Zlatan Ibrahimovic leikur með LA Galaxy.
Zlatan Ibrahimovic leikur með LA Galaxy. AFP

Aurelio De Laurentiis, forseti ítalska knattspyrnufélagsins Napoli, hefur mikinn áhuga á að fá hinn 38 ára gamla Zlatan Ibrahimovic til félagsins. Zlatan verður samningslaus um áramótin, en hann hefur leikið með LA Galaxy síðan á síðasta ári. 

„Ég hitti Zlatan í Los Angeles og bauð honum og fjölskyldunni hans í kvöldverð. Við skemmtum okkur konunglega og ég væri til í að sjá hann í Napoli-treyjunni. Við höfum rætt saman síðustu mánuði,“ er haft eftir De Laurentiis í La Gazetta Dello Sport. 

Zlatan þekkir vel til á Ítalíu því hann hefur leikið með þremur stærstu félögum landsins; AC Mílan, Inter Mílanó og Juventus. „Ítalía er eins og annað heimilið mitt og ég væri til í að fara í lið sem berst um titla,“ sagði sænski framherjinn við sama miðil á dögunum. 

mbl.is