Fyrirliði Njarðvíkur í Keflavík

Andri Fannar Freysson í leik með Njarðvík.
Andri Fannar Freysson í leik með Njarðvík. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Knattspyrnumaðurinn Andri Fannar Freysson, sem borið hefur fyrirliðaband Njarðvíkur undanfarin ár, er genginn í raðir Keflavíkur. Andri er 27 ára miðjumaður sem spilaði sextán leiki í efstu deild með Keflavík 2013 og 2014. 

Hann lék stórt hlutverk hjá Njarðvík sem fór upp úr 2. deild árið 2017, en féll eftir tveggja ára veru í 1. deild á síðustu leiktíð. 

Þá hefur Sigurbergur Bjarnason einnig gengið í raðir Keflavíkur frá Njarðvík. Sigurbergur lék einn leik með Keflavík í efstu deild árið 2015, þá aðeins 16 ára gamall, en gekk svo í raðir Njarðvíkur. 

Sigurbergur hefur glímt við erfið meiðsli og lék hann aðeins fjóra leiki með Njarðvík, áður en hann var lánaður til Vestra þar sem hann lék einn leik. Fótbolti.net greindi frá. 

mbl.is