Erdogan sendir UEFA tóninn

Tyrkir að fagna sigurmarkinu gegn Albaníu í síðasta mánuði.
Tyrkir að fagna sigurmarkinu gegn Albaníu í síðasta mánuði. AFP

Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að UEFA sé að mismuna Tyrkjum en UEFA hefur hafið rannsókn á því þegar leikmenn tyrkneska landsliðsins í knattspyrnu fögnuðu mörkum sínum og sigrum að hermannasið í leikjum sínum gegn Albaníu og Frakklandi í undankeppni EM í síðasta mánuði.

Með þessu vildu tyrknesku landsliðsmennirnir styðja hernaðaraðgerðir Tyrkja í Sýrlandi. Erdogan segir um rannsókn UEFA að hún sé hluti af víðtækari herferð gegn íþróttastjörnum Tyrkja sem studdu hernaðaraðgerðina.

Við höfnum mismunun, óréttlátu og pólitísku viðhorfi UEFA gagnvart landsliði okkar og félögum. Það er náttúrulegur réttur íþróttamanna okkar að senda kveðjur á hermenn okkar eftir sigur,“ sagði Erdogan.

Tyrkir taka á móti Íslendingum í undakeppninni á Ali Sami Yen-leikvanginum í Istanbul á fimmtudaginn í næstu viku þar sem Íslendingar verða að vinna til að eiga möguleika á að ná einu af tveimur efstu sætunum og tryggja sér þar með farseðilinn á EM. Jafntefli dugar Tyrkjum til tryggja sér sæti á EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert