Ramsey bað Ronaldo afsökunar

Aaron Ramsey potar boltanum yfir línuna.
Aaron Ramsey potar boltanum yfir línuna. AFP

Aaron Ramsey, leikmaður Juventus, hefur beðið liðsfélaga sinn Cristiano Ronaldo afsökunar fyrir að stela af honum marki í 2:1-sigri liðsins á Lokomotiv Moskvu í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í gær. 

Boltinn var á leiðinni inn í markið eftir skot frá Ronaldo, en Ramsey potaði honum inn, nánast af línunni. Í leiðinni kom hann í veg fyrir að Ronaldo setti nýtt met yfir flesta andstæðinga sem einn leikmaður hefur skorað á móti í keppninni. 

„Ég misskildi stöðuna og hélt að markmaðurinn gæti enn náð til boltans. Ég vildi bara vera viss um að við myndum skora. Ég bað Cristiano afsökunar,“ sagði Ramsey eftir leikinn. 

mbl.is