Donk með þrennu í stórsigri Hollendinga

Danielle van de Donk skoraði þrennu fyrir Hollendinga.
Danielle van de Donk skoraði þrennu fyrir Hollendinga. AFP

Slóvakía og Ungverjaland, sem leika í sama riðli og Íslendingar í undankeppni EM kvenna í knattspyrnu, gerðu markalaust jafntefli í dag.

Þar með kræktu Ungverjar í sitt fyrsta stig í riðlinum en Slóvakía er með 4 stig á eftir Svíþjóð og Íslandi sem hafa bæði 9 stig.

Evrópumeistarar Hollendinga burstuðu Tyrki 8:0 í A-riðlinum og hafa þar með unnið alla fimm leiki sína. Danielle van de Donk skoraði þrennu fyrir Hollendinga og þær Vivianne Miedema og Sherida Spitse skoruðu tvö mörk hvor.

Í B-riðlinum vann Ítalía stórsigur á Georgíu 6:0 þar sem Daniela Sabatino skoraði tvö af mörkum ítalska liðsins.

Norðmenn eru með fullt hús í C-riðlinum en þeir unnu öruggan 6:0 sigur gegn N-Írum. Lisa-Marie Utland og Caroline Graham Hansen skoruðu tvö mörk hvor fyrir norska liðið, sem er með 12 stig fyrir fjóra leiki.

mbl.is