Ronaldo hundfúll og yfirgaf leikvanginn áður en leik lauk

Ronaldo gengur af velli í leiknum í kvöld.
Ronaldo gengur af velli í leiknum í kvöld. AFP

Cristiano Ronaldo varð hundfúll þegar hann var tekinn af velli í liði Juventus á 55. mínútu í viðureign Juventus og AC Milan í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Juventus hafði betur 1:0 og skoraði Paulo Dybala, sem kom inn á fyrir Ronaldo, sigurmarkið á 77. mínútu. Með sigrinum endurheimti Juventus toppsætið í deildinni.

Ronaldo rauk beint inn í búningsklefann þegar honum var skipt út af og ítalskir fjölmiðlar greina frá því að portúgalska stórstjarnan hafi yfirgefið leikvanginn þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Þetta er annar leikurinn í röð sem Ronaldo er tekinn af velli en hann var tekinn út af á 82. mínútu í leiknum gegn Lokomotiv Moskva í Meistaradeildinni í vikunni.

mbl.is