Hljóp þjálfarann niður og fékk rautt spjald (myndskeið)

Christian Streich þjálfari Freiburg liggur í grasinu.
Christian Streich þjálfari Freiburg liggur í grasinu. AFP

Það sauð heldur betur upp úr í viðureign Freiburg og Eintracht Frankfurt í þýsku Bundesligunni í knattspyrnu í gær.

Undir lok leiksins fékk David Abraham, fyrirliði Frankfurt, rautt spjald þegar hann hljóp utan í Christian Streich þjálfara Freiburg með þeim afleiðingum að hann steinlá í grasinu. Í kjölfarið sauð upp úr en varamenn Freiburg og leikmenn liðsins gerðu aðsúg að Abraham sem fékk í kjölfarið sitt annað gula spjald og var rekinn af velli.

„Mig langar til að biðja Christian Streich afsökunar. Ég vildi koma boltanum aftur í leik eins fljótt og auðið er, en ég hefði ekki átt að fara utan í hann. Ég er virkilega ánægður með að við töluðum saman eftir leikinn og að allt sé í lagi á milli okkar,“ sagði Abraham á Twitter-síðu sinni en atvikið má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Freiburg fagnaði 1:0 sigri og komst með honum upp í þriðja sæti deildarinnar en Frankfurt er 9. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert