Lindelöf valinn bestur annað árið í röð

Lindelöf í baráttu við Jamie Vardy, framherja Leicester City.
Lindelöf í baráttu við Jamie Vardy, framherja Leicester City. AFP

Annað árið í röð var Victor Lindelöf kjörinn knattspyrnumaður ársins í Svíþjóð og fékk Gullboltann en valið var kunngert á lokahófi sænska knattspyrnusambandsins í Stokkhólmi í gærkvöld.

Lindelöf er miðvörður Manchester United og sænska landsliðsins og er lykilmaður hjá báðum liðum. Hann var einnig valinn varnarmaður ársins. Emil Forsberg var valinn miðjumaður ársins, Robin Olsen markvörður ársins og Zlatan Ibrahimovic sóknarmaður ársins.

Í kvennaflokki varð landsliðskonan Carolone Seger fyrir valinu en hún er liðsfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur hjá sænska meistaraliðinu Rosengård.

Seger var einnig valin miðjumaður ársins, Linda Sembrant var valin varnarmaður ársins, Hedvig Lindahl markvörður ársins og Kosovare Asllani sóknarmaður ársins.

mbl.is