Eiður Smári enn á launaskrá Barcelona?

Eiður Smári hampar Evrópubikarnum í Róm árið 2009.
Eiður Smári hampar Evrópubikarnum í Róm árið 2009. AFP

Allir þeir leikmenn sem hafa unnið Evrópumeistaratitil með knattspyrnuliði Barcelona fá laun frá félaginu til lífstíðar.

Frá þessu greinir Argentínumaðurinn Juan Carlos Heredia í viðtalið við spænska tímaritið The Tactical Room en Heredia var í liði Barcelona sem hafði sigur í Evrópukeppni bikarahafa árið 1979.

Hann segir Juan Laporta, fyrrverandi forseti Barcelona, hafa tekið þá ákvörðun eftir sigur Barcelona á Manchester United í úrslitaleik í Róm árið 2009 að greiða ætti öllum þeim leikmönnum sem hafa unnið Evrópumeistaratitil með félaginu laun til æviloka.

Þar með ættu um 290 leikmenn að þiggja laun frá Katalóníuliðinu til æviloka en félagið hefur unnið tólf Evrópumeistaratitla, Evrópukeppni Meistaraliða, sem nú nefnist Meistaradeildin, fimm sinnum, Evrópukeppni bikarhafa fjórum sinnum og UEFA-bikarinn þrisvar sinnum.

Ekki kemur fram hversu háa upphæð leikmennirnir fá en reynist þessi frásögn Heredia rétt er Eiður Smári Guðjohnsen enn þá á launaskrá Barcelona en Eiður var í liði Barcelona sem vann Evrópumeistaratitilinn árið 2009. Hann var ónotaður varamaður í úrslitaleiknum gegn Manchester United þar sem Lionel Messi og Samuel Eto'o skoruðu mörk liðsins í 2:0 sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert