„Tóku boltann frá mér“

Ivan Rakitíc fagnar með Lionel Messi.
Ivan Rakitíc fagnar með Lionel Messi. AFP

Króatíski landsliðsmaðurinn Ivan Rakitić er leiður yfir stöðu sinni hjá Spánarmeisturum Barcelona en á þessu tímabili hefur Króatinn verið mikið úti í kuldanum hjá Ernesto Valvarde þjálfara Börsunga og líklegt er að miðjumaðurinn rói á önnur mið í janúar.

Rakitić hefur aðeins verið í byrjunarliðinu í einum leik með Barcelona á leiktíðinni, níu sinnum hefur hann komið inn á sem varamaður en í sex leikjum hefur hann ekkert komið við sögu. Eftir að Barcelona keypti hollenska miðjumanninn Frenkie de Jong hefur Rakitić verið varaskeifa.

„Hvernig get ég skemmt mér? Með því að spila fótbolta,“ sagði Rakitić í viðtali við spænsku sjónvarpsstöðina Movistar+.

„Og þetta er eins og ég segi oft. Hvernig líður litlu dóttur minn þegar dótið er tekið af henni. Hún verður leið. Mér líður eins. Barcelona hefur tekið boltann frá mér og ég er leiður yfir því.

Ég skil og virði ákvarðanir þjálfarans eða félagsins en ég held að ég hafi gefið mikið til félagsins á þessum fimm árum. Það sem ég vil er að halda áfram að skemmta mér, það er það mikilvægasta fyrir mig. Ég get bara skemmt mér með því að spila. Ég er 31 árs gamall en ekki 38. Ég er í mínu besta formi,“ sagði Rakitíc.

Rakitíc hefur spilað samtals 278 leiki með Barcelona frá því hann kom til liðsins frá Sevilla árið 2014. Þar á undan spilaði hann með þýska liðinu Schalke og Basel í Sviss. Króatinn mun væntanlega reyna að komast í burtu í janúarglugganum og hefur hann meðal annars verið orðaður við Manchester United.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert