Villa leggur skóna á hilluna

David Villa leggur skóna á hilluna eftir leiktíðina.
David Villa leggur skóna á hilluna eftir leiktíðina. AFP

David Villa, markahæsti leikmaður spænska knattspyrnulandsliðsins frá upphafi, leggur skóna á hilluna eftir leiktíðina, 38 ára að aldri, eftir 19 ára feril sem atvinnumaður. 

Villa leikur sem stendur með Vissel Kobe í Japan og eru þrjár umferðir eftir af deildarkeppninni þar í landi. Villa vann HM 2010 og EM 2008 með Spánverjum og Meistaradeild Evrópu með Barcelona árið 2011. 

Hann skoraði 59 mörk í 98 landsleikjum og komu fjögur þeirra á EM 2008 þar sem hann vann gullskóinn og var valinn í lið mótsins. Þá skoraði hann meira en 100 mörk fyrir Valencia og fór í kjölfarið til Barcelona og svo Atlético Madríd. Eftir það lá leiðin til New York City, Melbourne City og loks Vissel Kobe. 

Alls hefur Villa skorað yfir 400 mörk á ferlinum í 850 leikjum. Á yfirstandandi leiktíð í Japan er Villa búinn að skora tólf mörk í 22 leikjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert