„Ég kom, sá og sigraði“

Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. AFP

Sænska fótboltastjarnan Zlatan Ibrahimovic hefur staðfest brottför sína frá bandaríska liðinu Los Angeles Galaxy en hefur ekki gefið það út hvað tekur við hjá honum eða hvort skórnir séu komnir á hilluna.

Zlatan, sem hefur spilað með LA Galaxy undanfarin tvö ár, greindi frá þessu í Twitter-færslu.

„Ég kom, sá og sigraði. Til stuðningsmanna LA Galaxy — þið vilduð Zlatan og þið fenguð Zlatan. Sagan heldur áfram og farið nú aftur að horfa á hafnabolta,“ skrifaði Zlatan á Twitter.

Zlatan, sem er 38 ára gamall, skoraði 53 mörk í 56 leikjum með LA Galaxy. Hann hefur verið sterklega orðaður við ítalska liðið AC Milan sem hann lék með frá 2010 til 2012 og skoraði 42 mörk í 61 deildarleik.

mbl.is