Tilbúnir að fórna þremur fyrir Zlatan

Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. AFP

Ítalska knattspyrnuliðið AC Milan er reiðubúið að fórna þremur leikmönnum sínum til þess að losa um fjármuni og pláss til að ryðja brautina fyrir endukomu sænska sóknarmannsins Zlatan Ibrahimovic.

Zlatan hefur verið sterklega orðaður við Mílanóliðið en hann tilkynnti í gær um brottför sína frá bandaríska liðinu LA Galaxy, sem hann hefur spilað með undanfarin tvö ár.

Leikmennirnir þrír sem AC Milan er tilbúið að losa sig við í janúar eru Fabio Borini, Franck Kessie og Ricardo Rodriguez að sögn ítalskra fjölmiðla. AC Milan er sagt ætla að greiða Zlatan jafnvirði 565 milljóna króna í laun á ári en hann lék með liðinu frá 2010 til 2012 og skoraði 42 mörk í 61 deildarleik með því.

mbl.is