Enrique sagður vera að taka aftur við liði Spánverja

Luis Enrique.
Luis Enrique. AFP

Spænska knattspyrnusambandið hefur boðað til fréttamannafundar í dag þar sem greint verður frá endurkomu Luis Enrique í starf landsliðsþjálfara að sögn spænskra fjölmiðla.

Robert Moreno tók við landsliðsþjálfarastarfinu í júní eftir að Enrique steig til hliðar vegna veikinda ungrar dóttur sinnar sem lést úr krabbameini í september.

Moreno er sagður hafa kvatt leikmenn landsliðsins eftir 5:0 sigur á móti Rúmenum í undankeppni EM í gærkvöld. Hann mætti ekki á fréttamannafund eftir leikinn og leikmenn landsliðsins vildu ekki tjá sig um málið.

Spænska blaðið Marca greinir frá því að Moreno hafi sést tárvotur yfirgefa búningsklefa spænska liðsins eftir leikinn. Hann þakkaði leikmönnum sínum fyrir árangurinn í undankeppninni og óskaði þeim góð gengis á EM næsta sumar.

Spánverjar höfnuðu í efsta sæti í F-riðli undankeppninnar. Þeir unnu átta leiki og gerðu tvö jafntefli. Markatala þeirra var 31:5.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert