Guðjón er rétti maðurinn í starfið

Guðjón Þórðarson og Jens Martin Knudsen.
Guðjón Þórðarson og Jens Martin Knudsen. Ljósmynd/NSÍ

Daninn Lars Olsen stýrði færeyska karlalandsliðinu í knattspyrnu í síðasta skipti í gærkvöld þegar það tapaði fyrir Svíum 3:0 í undankeppni EM.

Olsen hefur verið við stjórnvölinn hjá Færeyingum undanfarin átta ár en hann ákvað fyrir nokkru síðan að hætta og var á dögunum ráðinn þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Esbjerg.

Jens Martin Knudsen, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Færeyinga, er ekki í neinum vafa um hver eigi að taka við þjálfun landsliðsins. Hann segir að Guðjón Þórðarson sé rétti maðurinn í starfið.

Guðjón hætti hjá færeyska liðinu NSÍ á dögunum eftir eins árs starf en Jens Martin var aðstoðarmaður hans hjá félaginu. Guðjón er einn þeirra þjálfara sem sóttu um landsliðsþjálfarastarfið.

„Færeyska knattspyrnusambandið fær ekki slíkan möguleika aftur að fá mann í starfið með jafn mikla reynslu og Guðjón,“ sagði Jens Martin í viðtali sem er birt á in.fo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert