KR-ingur skoraði í Þjóðadeildinni (myndskeið)

Pablo Punyed í leik með KR í haust.
Pablo Punyed í leik með KR í haust. mbl.is/Hari

Pablo Punyed, einn af Íslandsmeisturum KR-inga í knattspyrnu 2019, lék í nótt sinn fyrsta landsleik í nokkurn tíma fyrir heimaland sitt, El Salvador, og hélt upp á það með því að skora mark.

Pablo, sem lék sinn 24. landsleik og skoraði sitt þriðja mark, spilaði síðast með liði El Salvador í undankeppninni fyrir HM 2018. Hann kom inn í landsliðshópinn fyrir tvo síðustu leiki liðsins í B-deild Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku og kom ekkert við sögu í 1:0 sigri á Montserrat á sunnudaginn.

Honum var skipt inn á á 80. mínútu gegn Dóminíska lýðveldinu í San Salvador, höfuðborg El Salvador, og innsiglaði 2:0 sigur með laglegu marki á 87. mínútu sem má sjá í myndskeiðinu hér fyrir neðan.

El Salvador vann sinn riðil með 15 stigum af 18 mögulegum og tryggði sér með því sæti í A-deildinni fyrir næstu keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert