Skandall, svindl og sjálfsmark

Kevin De Bruyne, til hægri, er óhress með úrslitakeppni EM.
Kevin De Bruyne, til hægri, er óhress með úrslitakeppni EM. AFP

Kevin De Bruyne, landsliðsmaður Belgíu og leikmaður Manchester City, hefur lýst yfir mikilli óánægju með lokakeppni EM karla í knattspyrnu sem fram fer sumarið 2020.

Belgar tryggðu sér sæti þar með því að vinna alla tíu leiki sína í undankeppninni en De Bruyne segir að það sé svindl nú þegar sé nánast öruggt hvernig riðill liðsins í lokakeppninni muni verða skipaður.

Lokakeppnin fer fram með öðru sniði en áður, spilað er í tólf borgum í jafnmörgum löndum, og flestar gestgjafaþjóðanna hafa tryggt sér sæti í henni. Þar með er er búið að raða niður fyrir fram stórum hluta keppninnar.

Belgar vita sjálfir að þeir verði í B-riðli, enda þótt þeir séu ekki í gestgjafahlutverki, og fyrir liggur að bæði Danir og Rússar verða í riðlinum. Ástæðan er sú að Ítalía, England, Þýskaland og Spánn, sem eru í fyrsta styrkleikaflokki, hafa þegar verið sett í riðla sem verða á þeirra heimavöllum og þá standa eftir Belgía og Úkraína. Þar sem Rússar, sem koma úr öðrum styrkleikaflokki og hefur verið stillt upp í B-riðil, geta ekki verið með Úkraínu í riðli af pólitískum ástæðum, er klárt að Belgar verða í riðlinum. Hann verður leikinn í Kaupmannahöfn, og þar með koma Danir í sama riðil í þriðja styrkleikaflokki.

„Þetta er skandall, satt best að segja. Fótboltinn er ekki lengur fótbolti, þetta eru bara einhver viðskipti. Við leikmennirnir þurfum að venjast þessu en fyrir mér er keppnin í heild ekkert nema svindl. Það er búið að svipta hana allri gleði og stemmningu.

„Að keppnin sé haldin á svona mörgum stöðum er ekkert nema sjálfsmark,“ sagði De Bruyne við belgíska ríkissjónvarpið.

mbl.is