Bale kann ekki orð í spænsku

Gareth Bale.
Gareth Bale. AFP

Ramon Calderón, fyrrverandi forseti Real Madrid, á ekki von á því að Gareth Bale fái góðar móttökur hjá stuðningsmönnum liðsins næst þegar hann stígur inn á Santiago Bernabéu. 

Í fagnaðarlátum Wales-verja á dögunum þegar þeir tryggðu sér sæti í lokakeppni EM voru Bale og liðsfélagar hans komnir með fána í hendurnar sem stuðningsmenn Wales komu með. Þar stóð að forgangsröðin hjá Bale væri: Wales. Golf. Real Madrid. Í þessari röð

Uppátækið vakti litla hrifningu á Spáni.

„Ég er viss um að fólk muni baula á hann þegar hann birtist vegna þess að það sé ósátt við það sem hann gerði. Fjölmiðlarnir hafa verið ansi grimmir og jafnvel sett málið á forsíðu. Það er hluti vandans. Bale hefur verið feiminn út á við og ekki verið í samskiptum við fjölmiðla. Stuðningsmennirnir vita ekki hvað fer í gegnum hugann hjá honum vegna þess að hann talar ekki orð í spænsku,“ sagði Calderón í samtali við BBC en leyfir Bale að njóta vafans og segist ekki vita hvort Bale hafi áttað sig á því hvað stóð á fánanum. En hafi hann vitað það þá hafi verið barnalegt hjá honum að taka þátt í þessu. 

Calderón segir enn fremur að góð lausn væri fyrir alla ef Bale færi aftur til Tottenham. „Það er rétt að Mourinho líkar vel við Bale. Það kom fram þegar Mourinho reyndi að fá Bale til Manchester United árið 2017,“ sagði Calderón en benti einnig á að engin tilboð bærust í Bale fyrir utan eitt sem kom frá Kína í sumar. 

„Launin eru há og það er hluti vandans. Það er eitthvað sem viðkomandi félag sem hefur áhuga, leikmaðurinn og umboðsmaðurinn þurfa að leysa,“ sagði Calderón sem kom til Íslands árið 2016 og talaði þá á ráðstefnu í Hörpunni. 

Gareth Bale í landsleiknum á dögunum.
Gareth Bale í landsleiknum á dögunum. AFP
mbl.is