Félag Arnórs fékk sekt og aðvörun

Arnór Ingvi Traustason, ljósblár, í leik Malmö og Lugano í …
Arnór Ingvi Traustason, ljósblár, í leik Malmö og Lugano í Evrópudeildinni. AFP

Sænska knattspyrnufélagið Malmö sem Arnór Ingvi Traustason leikur með hefur verið sektað um 50 þúsund evrur, jafngildi tæpra sjö milljóna íslenskra króna, og fékk jafnframt skilorðsbundna refsingu frá UEFA.

Ástæðan fyrir þessu er hegðun hóps stuðningsmanna Malmö á heimaleik liðsins við nágrannana í FC København í Evrópudeildinni fyrir skömmu. Þeir skutu upp flugeldum og köstuðu ýmsu lauslegu í átt að vellinum.

Skilorðsbundna refsingin er til eins árs og ef eitthvað í þessa veru endurtekur sig hjá stuðningsmönnum Malmö, hvort sem er á heimavelli eða útivelli, verður hluta leikvangsins lokað á næsta heimaleik í Evrópukeppni.

Malmö á eftir tvo leiki í Evrópudeildinni. Liðið tekur á móti Dynamo Kiev frá Úkraínu í næstu viku og leikur síðan 12. desember við FC København á Parken, hinum megin við Eyrarsundið. Þessi þrjú lið eru í hörðum slag um sæti í 32ja liða úrslitum keppninnar en FC København og Dynamo Kiev eru með 6 stig hvort og Malmö 5 stig en Lugano frá Sviss er neðst í riðlinum með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert