Aldrei hætta að láta sig dreyma

Lionel Messi með Gullboltann í París í kvöld.
Lionel Messi með Gullboltann í París í kvöld. AFP

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi sagði í París í kvöld að það væri mjög sérstök upplifun að taka við Gullboltanum, Ballon d'Or, í sjötta sinn, enda þótt hann hefði margoft hreppt hann áður.

„Þetta er sjötti Gullboltinn og það er alveg ný upplifun fyrir mig ásamt fjölskyldu minni og börnum. Rétt eins og konan mín sagði við mig þá má maður aldrei hætta að láta sig dreyma, en um leið verður maður alltaf að leggja hart að sér til að bæta sig og líka njóta þess,“ sagði Messi við SkySports eftir að hann tók við verðlaunagripnum.

„Ég er virkilega heppinn og þakklátur og vonast eftir því að geta haldið lengi áfram að spila fótbolta, þótt auðvitað komi að því að ferlinum ljúki. Það verður erfitt en ég á enn nokkur flott ár fram undan. Tíminn líður hratt svo ég ætla mér að njóta fótboltans og fjölskyldunnar,“ sagði Lionel Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert