Höggið heldur honum enn frá keppni

Mikael Anderson í leik með 21-árs landsliðinu í haust
Mikael Anderson í leik með 21-árs landsliðinu í haust mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Mikael Anderson er enn ekki búinn að jafna sig eftir höggið sem hann fékk í landsleik Íslands og Moldóvu í undankeppni EM í fótbolta í síðasta mánuði.

Mikael, sem lagði upp fyrra mark Íslands í 2:1 sigrinum í Chisinau, fékk þungt högg á brjóstkassann snemma í seinni hálfleik og þurfti að fara af velli. Hann missti af fyrsta leik danska toppliðsins Midtjylland eftir landsleikjafríið og er ekki heldur klár í slaginn fyrir leik liðsins gegn Silkeborg sem fram fer á heimavelli Midtjylland í Herning í kvöld.

Allt hefur gengið í haginn hjá Midtjylland það sem af er tímabilinu en liðið er með fjögurra stiga forskot á FC Köbenhavn á toppi úrvalsdeildarinnar og á leikinn í kvöld til góða. Liðið hefur unnið 14 af fyrstu 17 leikjunum og aðeins tapað einum. 

mbl.is