Heiðraður fyrir bestu uppbygginguna í Asíu

Þorlákur Árnason ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum hjá knattspyrnusambandi Hong Kong …
Þorlákur Árnason ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum hjá knattspyrnusambandi Hong Kong við verðlaunaafhendinguna í gær.

Þorlákur Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong, tók í gær við viðurkenningu frá Knattspyrnusambandi Asíu, AFC, vegna góðrar uppbyggingar á fótboltanum í landinu.

Hong Kong fékk viðurkenninguna sem sú Asíuþjóð sem var með bestu uppbygginguna á árinu 2019, hvað varðar grasrótina, yngri flokkana og yngri landslið þjóðarinnar en verðlaunahófið fór fram í landinu.

Þorlákur tók við starfi yfirmanns knattspyrnumála í byrjun þessa árs og var ráðinn til tveggja ára.

Hong Kong fékk einnig tilnefningu til verðlauna fyrir grasrótarstarf í fótbolta en þar sigraði Singapúr.

Við sama tækifæri var Son Heung-min, leikmaður Tottenham og Suður-Kóreu, útnefndur knattspyrnumaður ársins 2019 í Asíu og Saki Kumagai, leikmaður Evrópumeistara Lyon og Japan, var útnefnd knattspyrnukona ársins.

mbl.is