Nóg að sjá svikahrappinn á einni æfingu

Ingvar Jónsson í landsleik gegn Katar.
Ingvar Jónsson í landsleik gegn Katar. AFP

„Það var nóg að sjá hann á einni æfingu,“ sagði Ingvar Jónsson, markvörður danska knattspyrnuliðsins Viborg, við mbl.is um hollenska leikmanninn Bernio Verhagen sem svindlaði sér inn á samning hjá félaginu fyrir nokkrum vikum.

„Það sást fljótlega á æfingunni að það var eitthvað gruggugt við þetta því leikmaðurinn var mjög slakur,“ sagði Ingvar og tók undir að málið væri búið að vera vandræðalegt fyrir Viborg, enda mikið fjölmiðlafár verið í kringum Verhagen.

Fram hefur komið í dönskum fjölmiðlum að það hafi verið leikmenn Viborg sem fyrstir hefðu gert athugasemdir við komu Verhagens til félagsins eftir að hafa séð tilburði hans með boltann.

mbl.is