Fékk óvænt tækifæri og hélt hreinu

Rúnar Alex Rúnarsson hélt hreinu hjá Dijon.
Rúnar Alex Rúnarsson hélt hreinu hjá Dijon. AFP

Landsliðsmarkmaðurinn Rúnar Alex Rúnarsson fékk óvænt tækifæri í liði Dijon er liðið gerði 2:2-jafntefli á heimavelli gegn Montpellier í frönsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. 

Rúnar byrjaði á varamannabekk Dijon, en lék seinni hálfleikinn vegna meiðsla Alfred Gomis, sem hefur verið aðalmarkmaður Dijon á leiktíðinni. Staðan var 2:1, Montpellier í vil, er Rúnar kom inn á og hélt hann hreinu í seinni hálfleiknum. 

Hann þurfti að taka á honum stóra sínum undir lok leiksins er hann varði glæsilega frá Andy Delort, sóknarmanni Montpellier. 

Dijon er í 16. sæti deildarinnar með 16 stig eftir 16 umferðir. Liðið leikur útileik gegn Nantes næstkomandi sunnudag og gæti Rúnar fengið tækifæri í byrjunarliðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert