Íslenskt félagsmet í Vejle

Kjartan Henry Finnbogason fagnar einu af 18 mörkum sínum fyrir …
Kjartan Henry Finnbogason fagnar einu af 18 mörkum sínum fyrir Vejle á árinu. Ljósmynd/Vejle

Kjartan Henry Finnbogason hefur sett nýtt félagsmet í markaskorun á einu ári fyrir danska knattspyrnuliðið Vejle en félagið skýrði frá þessu á heimasíðu sinni í dag.

Vejle miðar við „nútímann“, frá 1992 til 2019, en þegar Kjartan skoraði hjá Ingvari Jónssyni markverði Viborg í 3:3 jafntefli liðanna í dönsku B-deildinni á dögunum var það hans 18. mark fyrir félagið frá áramótum. Öll hafa þau komið í deildakeppninni, 5 í úrvalsdeildinni síðasta vetur og 13 í B-deildinni á yfirstandandi tímabili en Kjartan er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Hann fór framúr Pablo Pinores-Arce sem skoraði 17 mörk árið 2007 og Andreas Albers Nielsen sem skoraði 17 mörk árið 2017.

Kjartan kom til Vejle frá Ferencváros í Ungverjalandi í janúar á þessu ári og ákvað að leika áfram með liðinu þó það hefði fallið úr úrvalsdeildinni í vor.

Vejle-menn birta lista yfir alla leikmenn sem hafa skorað 10 mörk og meira á einu tímabili fyrir félagið frá 1992. Þar er ein Íslandstenging því Thomas Mikkelsen, núverandi framherji Breiðabliks, skoraði 11 mörk fyrir liðið í B-deildinni og bikarkeppninni á árinu 2011 og er í 13. sæti á þessum „árs-markalista“ félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert