Missir af stærsta leik tímabilsins

Eden Hazard verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla á ökkla.
Eden Hazard verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla á ökkla. AFP

Eden Hazard, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, verður fjarri góðu gamni næstu vikurnar vegna meiðsla sem hann varð fyrir í lok nóvember. Hazard meiddist á ökkla í 2:2-jafntefli Real Madrid gegn PSG á Spáni í Meistaradeildinni 26. nóvember síðastliðinn.

Í fyrstu var talið að meiðslin væru ekki alvarleg en nú er ljóst að Hazard verður frá út árið í það minnsta. Belginn missir því af stórleik Barcelona og Real Madrid sem fram fer á Nývangi í Barcelona 18. desember næstkomandi. Það er gríðarlega mikið undir í leiknum en liðin deila toppsæti 1. deildarinnar eftir fyrstu fjórtán leiki sína.

Bæði lið eru með 31 stig en Barcelona er með betri markatölu en Real Madrid. Hazard hefur farið rólega af stað með Real Madrid síðan hann gekk til liðs við félagið frá Chelsea síðasta sumar. Hann hefur einungis skorað eitt mark og lagt upp eitt í sjö byrjunarliðsleikjum í 1. deildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert