Frá Barcelona til Englands?

Ousmane Dembélé hefur ekki heillað marga á Spáni síðan hann …
Ousmane Dembélé hefur ekki heillað marga á Spáni síðan hann kom til Barcelona árið 2017. AFP

Ousmane Dembélé, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, mun yfirgefa félagið næsta sumar en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Dembélé er meiddur þessa stundina en hann gekk til liðs við Barcelona frá Borussia Dortmund í ágúst 2017 fyrir 125 milljónir evra. 

Franski sóknarmaðurinn hefur hins vegar ekki náð að heilla á Nývangi síðan hann kom til Barcelona og eru forráðamenn félagsins ósáttir með viðhorf leikmannsins. Dembélé er duglegur að spila tölvuleiki og eyðir frítíma sínum að mestu í það. Þá hugsar hann illa um sig og borðar mikið af skyndibita.

Þessi 22 ára gamli sóknarmaður var á meðal efnilegustu leikmanna heims fyrir þremur árum en hann hefur ekki staðið undir þeim væntingum.  Dembélé hefur skorað eitt mark í fimm leikjum í spænsku 1. deildinni á tímabilinu en spænskir fjölmiðlar greina frá því að umboðsmaður leikmannsins hafi rætt við bæði Manchester City og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert