Magnaður í mikilvægasta leik tímabilsins

Aron Sigurðarson var hetja Start í kvöld.
Aron Sigurðarson var hetja Start í kvöld. Ljósmynd/Start

Start hafði betur gegn Lillestrøm á heimavelli í fyrri leik liðanna í úrslitaeinvígi um sæti í efstu deild Noregs í fótbolta í kvöld, 2:1. Start hafnaði í þriðja sæti norsku B-deildarinnar og Lillestrøm í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar. 

Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Start og hann lét heldur betur að sér kveða. Daniel Gustafsson kom Lillestrøm yfir á 28. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0. 

Þá var komið að Aroni. Hann jafnaði metin úr víti á 54. mínútu, áður en hann skoraði sigurmarkið á 69. mínútu. Hann fékk gult spjald á 74. mínútu og var svo tekinn af velli í uppbótartíma. 

Arnór Smárason var allan tímann á varamannabekk Lillestrøm. Síðari leikurinn fer fram á heimavelli Arnórs og félaga næstkomandi miðvikudag. Jóhannes Harðarson er þjálfari Start. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert