Ancelotti rekinn frá Napoli — Gæti tekið við Gylfa

Carlo Ancelotti þakkar leikmönnum sinnum fyrir eftir leikinn í dag.
Carlo Ancelotti þakkar leikmönnum sinnum fyrir eftir leikinn í dag. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Napoli rak rétt í þessu knattspyrnustjórann Carlo Ancelotti, aðeins örfáum klukkutímum eftir að hann stýrði liðinu í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu með 4:0-heimasigri á Genk. 

Napoli hefur valdið vonbrigðum á leiktíðinni og er liðið í sjöunda sæti með 21 stig, 17 stigum á eftir toppliði Inter í ítölsku A-deildinni. Ancelotti tók við Napoli fyrir síðustu leiktíð og endaði liðið í öðru sæti deildarinnar á hans fyrsta tímabili. 

Ancelotti hefur verið orðaður við störf á Englandi og eru Everton og Arsenal bæði talin áhugasöm um að fá ítalska stjórann til liðs við sig. Hann þekkir vel til á Englandi, en hann stýrði Chelsea frá 2009 til 2011 og gerði liðið að Englands- og bikarmeistara árið 2010. 

Gennaro Gattuso þykir líklegastur til að taka við Napoli, en hann gerði garðinn frægan sem leikmaður og síðar þjálfari AC Mílan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert