Brothætt staða Evrópumeistaranna

Leikmenn Liverpool á æfingu fyrir leikinn gegn Salzburg.
Leikmenn Liverpool á æfingu fyrir leikinn gegn Salzburg. AFP

Mikil spenna er í öllum þeim fjórum riðlum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta þar sem lokaumferðin er leikin í kvöld. Aðeins eitt liðanna í E-, F-, G- og H-riðlum hefur tryggt sér öruggt sæti í sextán liða úrslitum keppninnar en það kemur í ljós hver hin sjö liðin verða.

E-RIÐILL:
17.55 Salzburg - Liverpool
17.55 Napoli - Genk
Liverpool er með 10 stig, Napoli 9, Salzburg 7 og Genk 1 stig. Evrópumeistarar Liverpool standa vel að vígi en staða þeirra er samt brothætt. Þeir mega engan veginn tapa í Austurríki því þá fer Salzburg upp fyrir þá, nema leikurinn endi 5:4. Napoli fær Genk í heimsókn á sama tíma og fer áfram með jafntefli, sama hvernig hinn leikurinn endar. 

F-RIÐILL:
20.00 Dortmund - Slavia Prag
20.00 Inter Mílanó - Barcelona
Þar er Barcelona þegar komið áfram með 11 stig en Dortmund og Inter eru með 7 stig hvort og heyja einvígi um annað sætið. Dortmund á þar hagstæðari mótherja en Inter mun hins vegar alltaf duga að gera það sama og Dortmund vegna innbyrðis úrslita liðanna. Vinni Inter sigur á Barcelona nægir Dortmund ekki að sigra Slavia.

G-RIÐILL:
20.00 Benfica - Zenit Pétursborg
20.00 Lyon - RB Leipzig.
Þar er Leipzig með 10 stig, Zenit 7, Lyon 7 og Benfica 4. Leipzig er þegar komið áfram. Benfica á ekki möguleika á öðru sætinu vegna innbyrðis úrslita en getur náð þriðja sæti og farið í Evrópudeildina. Slagurinn er því á milli Zenit og Lyon þar sem Rússarnir í Zenit standa vel að vígi en verða þó að treysta á að Lyon vinni ekki Leipzig.

H-RIÐILL:
20.00 Chelsea - Lille
20.00 Ajax - Valencia
Þarna er hörð keppni þriggja liða. Ajax er með 10 stig, Valencia 8 og Chelsea 8. Ajax nægir jafntefli og Chelsea færi alltaf áfram með sigri á Stamford Bridge. Valencia færi hins vegar áfram ef liðið myndi enda með jafnmörg stig og Chelsea.

Keppni í hinum fjórum riðlunum lýkur annað kvöld en þar hafa París SG, Real Madrid, Bayern München, Tottenham, Manchester City og Juventus þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum. 

mbl.is