Jesus með þrennu — Atalanta áfram

Gabriel Jesus skoraði þrennu.
Gabriel Jesus skoraði þrennu. AFP

Ítalska liðið Atalanta fylgir Manchester City upp úr C-riðli Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir afar sterkan 3:0-útisigur á Shakhtar Donetsk í lokaumferð riðilsins í dag. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Timothy Castagne ítalska liðinu yfir á 66. mínútu og ellefu mínútum síðar fékk Dodo beint rautt spjald hjá Shakhtar. Atalanta nýtti sér það því Mario Pasalic skoraði annað mark liðsins á 80. mínútu og Robin Gosens gulltryggði 3:0-sigur með marki í uppbótartíma. 

Dani Olmo kom Dinamo Zagreb yfir á móti Englandsmeisturum Manchester City á heimavelli króatíska liðsins. Þá var hins vegar komið að brasilíska framherjanum Gabriel Jesus.

Jesus jafnaði metin á 34. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1. Jesus var ekki hættur því hann skoraði tvö mörk snemma í seinni hálfleik og kom City í 3:1. Phil Foden gulltryggði 4:1-sigur City með marki á 84. mínútu. 

Manchester City vinnur riðilinn með 14 stig, Atalanta endar með sjö stig, Shakhtar, sem fer í Evrópudeildina, endar með sex stig og Dinamo rekur lestina með fimm stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert