Mæta til að klekkja á erkifjendunum

Arnór Smárason og félagar í Lilleström mæta Start í úrslitaleik …
Arnór Smárason og félagar í Lilleström mæta Start í úrslitaleik í kvöld og verða með stuðningsmenn tveggja liða á móti sér. Ljósmynd/LSK

Margir stuðningsmenn norska knattspyrnuliðsins Vålerenga ætla að mæta á völlinn í kvöld þótt þeirra lið sé komið í jólafrí. Þeir ætla að reyna að stuðla að því að nágrannaliðið Lilleström falli úr norsku úrvalsdeildinni.

Grunnt er á því góða milli stuðningsmanna Lilleström, sem er frá samnefndum bæ skammt austan við Ósló, og Vålerenga, sem er frá samnefndu hverfi í austurhluta Ósló. Í lok október urðu ólæti á leik liðanna í úrvalsdeildinni og stöðva þurfti hann um tíma þar sem áhorfendur skutu rakettum hver að öðrum. Leiknum var lýst sem dapurlegum kafla í sögu norsks fótbolta af talsmönnum knattspyrnusambandsins.

Lilleström, sem Arnór Smárason leikur með, leikur í kvöld seinni leik sinn í umspili við Start um sæti í úrvalsdeildinni en með Start leikur Aron Sigurðarson og þjálfari er Jóhannes Harðarson. Start, sem varð í þriðja sæti B-deildar, vann fyrri leikinn á sínum heimavelli, 2:1, og stendur því vel að vígi en Lilleström, sem varð í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildar, þarf á sigri að halda til að forðast fall.

Talsmaður stuðningsmanna Vålerenga, Erling Rostvåg, staðfesti við VG að hann vissi að margir úr þeirra hópi ætluðu á leikinn til að styðja við Start. „Vegna þess að við óskum þessu skítaliði alls ills,“ sagði Rostvåg.

„Þeir mega gera það sem þeir vilja. Ég held að okkar leikmenn séu svo einbeittir í að ná sínu markmiði og sigra Start að þeir láti þetta ekki slá sig út af laginu,“ sagði Robert Lauritsen, framkvæmdastjóri Lilleström.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert