Aron á leið til Helsingborgar?

Aron Elís Þrándarson í leik með Aalesund.
Aron Elís Þrándarson í leik með Aalesund. Ljósmynd/aafk.no/Srdan Mudrinic

Knattspyrnumaðurinn Aron Elís Þrándarson sem hefur leikið með Aalesund í Noregi undanfarin ár gæti verið á leið til Helsingborgar í sænsku úrvalsdeildinni.

Þetta kemur fram á sænska netmiðlinum minboll.se sem segir að Helsingborg hafi boðið Aroni samning.

Aron er 25 ára gamall miðjumaður og hefur leikið með Aalesund í fimm ár, tvö þau síðustu í B-deildinni sem liðið vann með yfirburðum á nýliðnu keppnistímabili. Aron sagði við Morgunblaðið í mótslok að hann ætlaði að leita fyrir sér annars staðar fyrir næsta tímabil.

Hann var í landsliðshópi Íslands í síðustu leikjum ársins í undankeppni EM og hefur spilað tvo A-landsleiki ásamt 32 leikjum með yngri landsliðum Íslands.

Með Helsingborg leikur Daníel Hafsteinsson sem félagið fékk frá KA í sumar. Liðið endaði í 10. sæti af sextán liðum í úrvalsdeildinni í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert