Minni mörk, boltar og vellir fyrir konur?

Pernille Harder í landsleik Danmerkur og Georgíu. Yrði hún betri …
Pernille Harder í landsleik Danmerkur og Georgíu. Yrði hún betri með minni bolta? AFP

Eiga konur að nota minni mörk, minni bolta og spila á minni völlum en karlar þegar kemur að knattspyrnunni? Joey Barton, leikmaður í ensku úrvalsdeildinni um árabil og núverandi knattspyrnustjóri Fleetwood Town, telur að þessu þurfi öllu að breyta til að konur komist á sama stall og karlar hvað varðar vinsældir í íþróttinni.

Emma Hayes, knattspyrnustjóri kvennaliðs Chelsea, kom þessari umræðu af stað þegar hún lagði til að minni mörk væru notuð í leikjum kvenna en hjá körlum. Hún benti m.a. á að í grindahlaupi stykkju konur yfir lægri grindur en karlar, sem væri eðlilegt miðað við hæðarmun á körlum og konum.

Barton tók undir þetta í hlaðvarpsumræðu í þættinum Football, Feminism & Everything in Between.

„Ef við ætlum að gera kvennafótboltann betri og áhorfendavænni, láta hann selja sig einan og sér á markaðnum, en höldum áfram að láta konur spila á jafnstórum völlum og karlar, með jafnstóran bolta og karlar, og samkvæmt reglum sem karlar spila eftir, þá verður söluvaran ávallt lakari, því karlar eru stærri, sterkari og fljótari en konur,“ sagði Barton.

„Til að taka þetta saman gæti kvennafótboltinn tekið risastór skref hvað varðar taktík og tækni og náð mikið lengra en en hann gerir með þeim takmörkunum sem til staðar eru í dag. 

Karlar spila með fótbolta númer fimm. Ef konur færu að spila með fótbolta númer fjögur, myndi nokkur taka eftir því? Örugglega ekki, en ég fullvissa ykkur um að úthald, framlag og gæði sendinga myndu aukast því boltinn væri aðeins minni og myndi henta betur líkamlegu atgervi leikmannanna,“ sagði Barton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert