Njarðvíkingurinn stórtækur á Parken

Arnór Ingvi Traustason í baráttunni á Parken í kvöld.
Arnór Ingvi Traustason í baráttunni á Parken í kvöld. AFP

Arnór Ingvi Traustason átti stóran þátt í sigri Malmö þegar liðið heimsótti FC Köbenhavn í sannkölluðum nágrannaslag á Parken í Kaupmannahöfn í Evrópudeildinni í knattspyrnu í B-riðli keppninnar í kvöld. Leiknum lauk með 1:0-sigri Malmö en Arnór átti skalla að marki FCK á 77. mínútu sem fór af Sotirios Papagiannopoulos og þaðan í netið.

Það reyndist eina mark leiksins en Arnór lék allan leikinn fyrir Malmö sem tryggði sér efsta sæti B-riðls með sigri kvöldsins og sæti í 32-liða úrslitum keppninnar, líkt og FCK sem endaði í öðru sæti riðilsins. Dynamo Kiev hefði getað farið uppfyrir annað Norðurlandaliðanna en náði aðeins jafntefli, 1:1, gegn Lugano frá Sviss á heimavelli og þar með komst FCK áfram þrátt fyrir ósigurinn.

Þá var Jón Guðni Fjóluson ekki í leikmannahópi Krasnodar sem tapaði 3:0 á útivelli fyrir spænska 1. deildarliðinu Getafe. Krasnodar þurfti á sigri að halda til þess að tryggja sér sæti í 32-liða úrslitum en tap gerir það að verkum rússneska liðið endar í þriðja sæti C-riðils og er þar með úr leik. Basel og Getafe fara hins vegar áfram í 32-liða úrslit keppninnar en Basel endaði í efsta sætinu með 13 stig.

Arsenal er einnig komið áfram í 32-liða úrslit keppninnar eftir 2:2-jafntefli gegn Standard Liége í Belgíu. Standard Liége komst í 2:0 í leiknum með mörkum frá þeim Samuel Bastien og Selma Amallah en Alexandre Lacasette og Bukayo Saka jöfnuðu metin fyrir Arsenal með tveggja mínútna millibili, seint í síðari hálfleik, og jafntefli því niðurstaðan. Arsenal endar í efsta sæti F-riðils en Eintracht Frankfurt í öðru sætinu með 9 stig.

Þá eru Sevilla, APOEL Nicosia, LASK, Sporting, Celtic og Cluj öllu komin áfram í 32-liða úrslitin en lið á borð við Lazio, PSV, Rosenborg og Dynamo Kiev sitja öll eftir með sárt ennið.

Bukayo Saka og Alexandre Lacazette fagna marki þess fyrrnefnda í …
Bukayo Saka og Alexandre Lacazette fagna marki þess fyrrnefnda í Belgíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert