Ítölsku meistararnir sem fórust í hlíðum Tórínó

Lið Tórínó þegar velgengnin var sem mest en liðið varð …
Lið Tórínó þegar velgengnin var sem mest en liðið varð meistari fimm ár í röð.

Flestir knattspyrnuáhugamenn hafa heyrt minnst á flugslysið mannskæða í München árið 1958. Um borð var lið Manchester United. Einnig kannast margir við þegar flugvél hrapaði í Andes-fjöllunum árið 1972 með knattspyrnulið frá Argentínu um borð. Ekki síst vegna þeirra ráða sem þeir sem lifðu þurftu að grípa til á meðan beðið var eftir björgun.

Í dag (þegar greinin var fyrst birt) eru sjötíu ár liðin frá hræðilegu flugslysi í Tórínó þar sem leikmenn besta knattspyrnuliðs Ítalíu á þeim tíma fórust. Slysið er ekki eins umtalað einhverra hluta vegna en verður hér rifjað lauslega upp.

Flugvél af gerðinni Fiat G 211 CP var á heimleið með karlalið Tórínó í knattspyrnu en alls voru þrjátíu og einn um borð. Tuttugu og sjö farþegar og fjórir í áhöfn. Vélin var að koma frá Lissabon í Portúgal en þar hafði Tórínó leikið vináttuleik gegn Benfica.

Eitt mannslíf er ekki merkilegra en annað en dauðsföll geta verið mismikið fréttaefni fyrir fjölmiðla. Lið Tórínó þess tíma var sambærilegt við lið Juventus í dag en nú vill svo til að þessi lið eru frá sömu borginni. Tórínó var ítalskur meistari þegar slysið varð og var í efsta sæti í deildakeppninni sem var langt komin snemma sumars 1949. Vann liðið raunar fimm sinnum í röð á fimmta áratugnum og jafnaði þar met Juventus.

Flaug utan í kirkju

Flugvélin var nánast komin heim til Tórínó þegar slysið varð. Skyggni var afar slæmt og í hlíðunum fyrir ofan byggðina varð óhapp sem leiddi til slyssins. Samkvæmt heimildum virðist vélin hafa rekið vænginn í kirkjuna Basilica di Superga sem stendur í útjaðri Tórínó-borgar í aðfluginu. Rakst raunar í vegg fyrir aftan kirkjuna. Framkvæmdir við að stækka kirkjuna höfðu verið settar í gang en hætt var við þær. Verkinu er í það minnsta ekki lokið og slysið hörmulega hefur ekki með það að gera. Rigning var og mjög lágskýjað auk suðvestan vindur. Kirkjan mun vera í liðlega 670 metra hæð.

Ekki liggur fyrir hvað olli slysinu en ein kenningin er sú að búnaður í vélinni hafi bilað með þeim afleiðingum að flugmennirnir hafi talið að vélin væri í meiri hæð en hún raunverulega var. Önnur kenning er á þá leið að vindurinn hafi haft áhrif. Í það minnsta er talið að flugstjórinn hafi ekki séð vegginn fyrr en vélin var í fjörutíu metra fjarlægð og hafi ekki getað brugðist við þar sem vélin var á 180 km hraða.

Eftir að vélin rakst á vegginn gat væntanlega ekkert bjargað fólkinu um borð í vélinni. Enginn lifði slysið af. Fimm manna áhöfn, nítján leikmenn, tveir þjálfarar, fjórir starfsmenn Tórínó-félagsins og loks þrír blaðamenn frá Tuttosport, La Stampa og Gazzetta del Popolo. Lið Tórínó var uppistaðan í ítalska landsliðinu um þetta leyti og margir sem fórust hefðu leikið fyrir Ítalíu á HM í Brasilíu árið eftir hefðu örlög þeirra orðið önnur.

Albert hitti þá í hádeginu

Glöggir knattspyrnuunnendur hafa ef til vill áttað sig á því að umrætt keppnistímabil, 1948-1949, er tímabilið sem Albert Guðmundsson lék með AC Milan. Albert var ekki bara leikmaður í Seríu A á þessu tímabili heldur var hann með síðustu mönnum til að ræða við leikmenn Tórínó sem fórust.

Þannig var mál með vexti að þegar Tórínó hélt til Lissabon til að spila góðgerðarleik fyrir leikmann Benfica þá var AC Milan einnig að heiman. Mílanóliðið fór til Madríd og lék þar vináttuleik gegn Real Madrid. Var Albert þá aftur orðinn leikfær eftir slæmt fótbrot sem hélt honum lengi frá um veturinn. Leiðir leikmanna Tórínó og leikmanna AC Milan lágu saman á flugvellinum í Barcelona. Þangað flugu bæði liðin að morgni dagsins örlagaríka 4. maí 1949. Þaðan hélt Mílanó-hópurinn áfram til Madrídar en Tórínó-hópurinn til Lissabon. Í erlendum heimildum kemur fram að hóparnir hafi náð að snæða hádegisverð saman í Barcelona áður en lengra var haldið.

„Þessi leikur á Santiago Bernabéu (heimavöllur Real Madrid sem tekinn var í notkun 1947, innsk. Mbl.) líður mér aldrei úr minni. Leikurinn varð nefnilega ekki eftirminnilegur vegna þeirrar knattspyrnu sem leikin var, heldur hins, að þegar við komum út af leikvanginum í hálfleik, voru okkur færð þau tíðindi, að Torínó-liðið hefði farist í flugslysi á meðan vorum að leika fyrri hálfleikinn,“ segir Albert í ævisögu sinni ritaðri af Gunnari Gunnarssyni.

Reglulegar minningarathafnir

Slysið olli þjóðarsorg á Ítalíu en knattspyrnan var þá eins og nú fyrirferðamikil í þjóðarsál Ítala. Þegar jarðarfarirnar fóru fram tveimur dögum síðar er áætlað að um hálf milljón manna hafi verið á götum og torgum borgarinnar til að votta knattspyrnumönnunum virðingu sína. Önnur lið í ítölsku Seríu A fóru fram á að Tórínó yrði ítalskur meistari hvernig sem færi í síðustu fjórum umferðunum sem eftir voru. Var það niðurstaðan og var það fimmti titill liðsins í röð. Tórínó tefldi þá fram unglingaliði sínu.

Á næsta keppnistímabili voru önnur lið skikkuð til að lána Tórínó leikmenn til að auðvelda þeim að tefla fram samkeppnisfæru liði. AC Milan lánaði Tórínó til að mynda Paddy Sloan sem Albert lýsti jafnan sem miklum vini sínum en þeir voru samherjar hjá Arsenal og AC Milan.

Ýmislegt hefur verið gert til að minnast þeirra sem létust. Minningarreit var komið fyrir á hæðinni þar sem slysið varð. Þangað koma árlega þúsundir manna og knattspyrnuunnendur skilja gjarnan eftir trefla, sem merktir eru liðum sem þeir styðja, héðan og þaðan í heiminum, eða annað knattspyrnutengt. Minningarathöfn er haldin á tíu ára fresti og í dag (þegar greinin var fyrst birt) ætlar hinn áttræði Bill Lievesley að vera viðstaddur. Hann er sonur Leslie Lievesley, sem var þjálfari Tórínó og fyrrverandi leikmaður Manchester United, en hann fórst í flugslysinu. Bill mætti í fyrsta sinn á slíka minningarathöfn fyrir tíu árum síðan.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 4. maí 2019

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert