Gömul fótboltahetja slapp með skrekkinn í skotárás

Darko Kovacevic lék í níu ár með Real Sociedad á …
Darko Kovacevic lék í níu ár með Real Sociedad á Spáni. AFP

Darko Kovacevic, fyrrverandi landsliðsmaður Serbíu og Svartfjallalands og leikmaður með Juventus og fleiri félögum, slapp naumlega frá skotárás við heimili sitt í Aþenu í Grikklandi í fyrrakvöld.

„Ég sá mann stökkva út úr bíl með byssu á lofti og koma í áttina að mér. Ég kastaði mér ósjálfrátt til hægri og þá skaut hann. Síðan hljóp hann til baka, skaust inn í bílinn og hvarf,“ segir Kovacevic í viðtali við El Diario Vasco.

Fjölmiðlar segja að Kovacevic hafi að vonum verið  brugðið en meiðsli hans hafi verið óveruleg, aðeins skrámur eftir byltuna. Svo virðist sem tilræðismaðurinn hafi haldið að hann hafi skotið Kovacevic til bana. Bifreiðin fannst skömmu síðar í ljósum logum.

Kovacevic, sem er 46 ára gamall, átti sín bestu ár með Juventus, Real Sociedad og Olympiacos og lék einnig hálft tímabil með Sheffield Wednesday í ensku úrvalsdeildinni. Kovacevic hefur verið búsettur í Grikklandi um árabil og var lengi íþróttastjóri Olympiacos. Hann lék 59 landsleiki fyrir Serbíu og Svartfjallaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert