Barcelona búið að ráða nýjan stjóra

Quique Setién er orðinn knattspyrnustjóri Barcelona.
Quique Setién er orðinn knattspyrnustjóri Barcelona. Ljósmynd/FC Barcelona

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona hefur rekið Ernesto Valverde frá störfum og ráðið Quique Setién í hans stað. Setién var síðast stjóri Real Betis. 

Valverde, sem tók við Barcelona sumarið 2017, er fyrsti stjórinn sem er rekinn á miðju tímabili hjá félaginu síðan Louis van Gaal fékk reisupassann fyrir 17 árum. 

Barcelona er í toppsæti spænsku 1. deildarinnar og komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Valverde stýrði Barcelona til sigurs í spænsku deildinni tvö ár í röð. Liðið féll hins vegar úr leik í Meistarabikar Spánar á dögunum. 

Setién, sem er 61 árs, lék á sínum tíma þrjá landsleiki fyrir A-landslið Spánar. Hann hefur stýrt liðum á borð við Real Betis, Las Palmas, Lugo og Racing Santander. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert