Ótrúleg frumraun Norðmannsins

Erling Haaland skorar hér fyrsta markið sitt skömmu eftir að …
Erling Haaland skorar hér fyrsta markið sitt skömmu eftir að hafa komið inn á í sínum fyrsta leik fyrir Dortmund. AFP

Norski knatt­spyrnután­ing­ur­inn Erl­ing Haaland átti hreint út sagt ótrúlega frumraun fyrir Dortmund í Þýskalandi er hann kom inn af varamannabekknum á 56. mínútu í leik Dortmund gegn Augsburg í efstu deild í dag.

Augsburg, sem enn er án Alfreðs Finnbogasonar vegna meiðsla, komst í 3:1 á 55. mínútu og aðeins mínútu síðar var Haaland skipt inn á í sínum fyrsta leik en hann kom til Dortmund frá Salzburg í Austurríki um síðustu mánaðamót.

Hann var búinn að vera inni á vellinum í þrjár mínútur þegar hann skoraði fyrsta markið sitt og það með sinni allra fyrstu snertingu í leiknum. Samherji hans, Jadon Sancho, jafnaði svo metin aðeins tveimur mínútum síðar og á 70. mínútu skoraði Norðmaðurinn, sem er aðeins 19 ára, sitt annað mark. Leiknum lauk með 5:3-sigri gestanna frá Dortmund sem er í 4. sæti með 33 stig, fjórum stigum frá toppliði Leipzig.

Hann fullkomnaði svo þrennuna á 79. mínútu eftir að hafa verið inni á í aðeins 23 mínútur. Haaland hefur slegið í gegn í vetur en hann spilað með Salzburg í efstu deild í Austurríki fyrir áramót og skoraði þar 16 mörk í 14 deildarleikjum ásamt því að skora átta mörk í sex leikjum í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is