Real skaust á toppinn

Casemiro fagnar seinna marki sínu í leiknum í dag.
Casemiro fagnar seinna marki sínu í leiknum í dag. AFP

Real Madríd skaust á topp spænsku efstu deildarinnar í knattspyrnu eftir 2:1-sigur á Sevilla á heimavelli sínum í dag en Barcelona leikur ekki fyrr en á morgun.

Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro sá um markaskorunina fyrir heimamenn í dag og gerði bæði mörk liðsins í síðari hálfleik en þar á milli tókst Hollendingnum Luuk de Jong að jafna metin.

Real er með 43 stig á toppnum eftir 20 leiki, þremur stigum á undan Barcelona sem á leik til góða. Þá eiga nágrannarnir í Atlético leik í kvöld en þeir sitja í þriðja sætinu með 35 stig, rétt eins og Sevilla í 4. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert