Samúel búinn að semja í Þýskalandi

Samúel Kári Friðjónsson búinn að skrifa undir samninginn. Til vinstri …
Samúel Kári Friðjónsson búinn að skrifa undir samninginn. Til vinstri Ólafur Garðarsson umboðsmaður og til hægri Martin Przondziono íþróttastjóri Paderborn. Ljósmynd/aðsend

Þýska knattspyrnufélagið Paderborn hefur gengið frá kaupum á landsliðsmanninum Samúel Kára Friðjónssyni frá norska félaginu Vålerenga og skrifaði hann undir tveggja og hálfs árs samning við félagið, eða til sumarsins 2022.

Samúel Kári er 23 ára gamall Keflvíkingur og leikur yfirleitt sem miðjumaður. Hann fór 17 ára gamall frá Keflavík til Reading á Englandi en þaðan til Vålerenga árið 2016. Á síðasta tímabili var hann lánaður til Viking frá Stavanger og lék 28 af 30 leikjum liðsins í norsku úrvalsdeildinni 2019 og skoraði 3 mörk.

Samúel hefur leikið 8 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og var í landsliðshópnum sem var á HM í Rússlandi sumarið 2018. Hann lék 43 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var í landsliðshópnum sem var valinn fyrir Kaliforníuferðina sem nú stendur yfir en þurfti að draga sig út úr honum þegar félagaskiptamálin fóru af stað.

Engu munaði að Samúel færi til Póllands en að sögn Ólafs Garðarssonar umboðsmanns voru þeir á leið þangað til að ganga frá málum þegar Paderborn hafði samband.

Samúel Kári Friðjónsson í leik með 21-árs landsliðinu haustið 2018.
Samúel Kári Friðjónsson í leik með 21-árs landsliðinu haustið 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon


Nýliðar sem léku í 3. deild fyrir tveimur árum

Paderborn er nýliði í þýsku 1. deildinni, efstu deild þar í landi, en situr þar í neðsta sætinu. Liðið lagaði þó stöðu sína í desember með sigrum á Werder Bremen og Eintracht Frankfurt og er nú rétt á eftir næstu liðum. Keppni hefst á ný um helgina eftir vetrarfríið og Paderborn á heimaleik gegn Leverkusen á morgun.

Paderborn leikur í annað sinn í efstu deild en þangað komst félagið í fyrsta sinn vorið 2014. Í kjölfarið féll það tvö ár í röð og lék í 3. deild 2016 til 2018, en var síðan aðeins tvö ár að komast aftur í efstu deild á ný.

Þrír Íslendingar léku með Paderborn í 3. deild á níunda áratug síðustu aldar, hluta af tímabili hver fyrir sig, en það voru Hafþór Sveinjónsson, Gauti Laxdal og Þorvaldur Örlygsson.

Með vistaskiptum Samúels Kára eru tveir Íslendingar í þýsku 1. deildinni um þessar mundir en Alfreð Finnbogason hefur leikið þar með Augsburg undanfarin fjögur ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert