Óskabyrjun Berglindar í Mílanó

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar sigurmarkinu gegn Roma í dag.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar sigurmarkinu gegn Roma í dag. Ljósmynd/@acmilan

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu,  skildi ekki skotskóna eftir á Íslandi þegar hún fór til Mílanó en hún var á dögunum lánuð frá Breiðabliki til AC Milan fram á vorið. 

Berglind sló í gegn í sínum fyrsta leik með ítalska stórliðinu í dag. Milan tók á móti AS Roma á Vismara-vellinum og mættust þar liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar. 

AC Milan lenti 0:2 undir í leiknum en vann sætan 3:2 sigur eftir frábæran lokasprett. Berglind minnkaði muninn á 70. mínútu og Refiloe Jane jafnaði á 78. mínútu. Heimaliðið nýtti tímann vel sem var til stefnu og Berglind skoraði sigurmarkið á 89. mínútu og sitt annað mark í frumrauninni með Mílanóliðinu. 

Roma er með 24 stig en Milan 23 stig. Juventus er efst eins og í karladeildinni með 34 stig og Fiorentina er með 28 stig. 

mbl.is