Síminn að springa - Berglind fékk hatursskilaboð eftir fyrsta leikinn

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar ásamt samherjum sínum eftir að hafa …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar ásamt samherjum sínum eftir að hafa skorað sigurmark AC Milan gegn Roma í leiknum í dag. Ljósmynd/@acmilan

Berglind Björg Þorvaldsdóttir landsliðskona í knattspyrnu er afar ánægð með fyrstu dagana hjá ítalska stórveldinu AC Milan og hún gat ekki byrjað betur með liðinu innan vallar því eins og kom fram á mbl.is fyrr í dag skoraði hún tvívegis í fyrsta leiknum, í 3:2 sigri á Roma í A-deildinni, og sigurmarkið gerði hún rétt fyrir leikslok.

„Ég flaug hingað síðasta miðvikudag, það er búið að vera nóg að gera en það eru allir ótrúlega hjálpsamir og vilja allt fyrir mann gera. Félagið og allt í kringum það er til mikillar fyrirmyndar,“ sagði Berglind Björg við mbl.is eftir leikinn en hún er í láni hjá AC Milan frá Breiðabliki fram á vorið.

Hún hafði ekki eins góða reynslu af því að vera hjá Verona í sömu deild fyrir tveimur árum þar sem hún var líka markheppin og gerði fjögur mörk í átta leikjum. „Nei, það er ekki hægt að líkja þessu saman,“ sagði Berglind og aðspurð sagði hún að hjá AC Milan væri um nákvæmlega sama félagið að ræða og hjá körlunum, nema hvað spilað væri á minni leikvangi í Mílanóborg.

Leikurinn byrjaði þó ekki vel fyrir AC Milan og Berglindi því gestirnir frá Róm voru komnir í 2:0 snemma í seinni hálfleiknum. 

„Fyrri hálfleikurinn var frekar jafn en við gerðum slæm mistök og þær skoruðu tvö ódýr mörk. En við áttum seinni hálfleikinn, sóttum mun meira og ógnuðum mikið. Svo tókst okkur að skora þessi þrjú mörk og næla í öll stigin. Það er alltaf gaman að spila dramatíska leiki, þótt þetta hafi kannski verið fullmikil dramatík. En það skemmdi ekki fyrir að skora sigurmarkið í fyrsta leik!“ sagði Berglind.

Falleg skilaboð og hatursskilaboð

Hún skoraði bæði mörkin sín eftir hornspyrnur. „Já, í því fyrra fékk ég boltann, tók eina snertingu og náði svo að lyfta honum með ristinni yfir markmanninn. Sigurmarkið kom þannig að okkar leikmaður átti skot í þverslána, önnur skallaði boltann fyrir markið og ég náði að kasta mér á hann og skalla hann í markið,“ sagði Berglind og sagði að síminn sinn væri hreinlega að springa.

„Já, ég er búin að fá mikið af fallegum skilaboðum frá aðdáendum AC Milan en líka nokkur hatursskilaboð frá stuðningsmönnum Roma!“ sagði Berglind Björg við mbl.is.

Næsti leikur er á útivelli gegn botnliðinu Orobica á laugardaginn kemur en AC Milan hefur leikið ellefu leiki af 22 á tímabilinu og er í fjórða sæti með 23 stig. Juventus er með 34 stig, Fiorentina 28 og Roma 24 stig en öll hafa þau leikið einum leik meira en Berglind og samherjar hennar.

mbl.is