Vill komast burt frá París

Edinson Cavani í leik með PSG gegn Mónakó í frönsku …
Edinson Cavani í leik með PSG gegn Mónakó í frönsku 1. deildinni. AFP

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Edinson Cavani sem hefur skorað flest mörk í sögu franska félagsins París SG vill komast burt frá liðinu.

BBC segir að Atlético Madrid hafi haft samband og vilji fá Cavani í sínar raðir en hann hefur skorað 198 mörk fyrir Parísarliðið. Eftir að Mauro Icardi kom til liðsins sem lánsmaður frá Inter Mílanó síðasta sumar hafa tækifæri Úrúgvæjans verið takmörkuð og hann hefur aðeins tekið þátt í fjórtán leikjum á tímabilinu.

Cavani er 32 ára gamall og kom til PSG frá Napoli fyrir sjö árum og hefur unnið franska meistaratitilinn fimm sinnum með liðinu og tvívegis verið markakóngur deildarinnar. Hann hefur skorað 50 mörk í 116 landsleikjum fyrir Úrúgvæ.

mbl.is