Óvíst um sæti í byrjunarliðinu þrátt fyrir þrennu

Erling Braut Haaland fagnar einu markanna gegn Augsburg.
Erling Braut Haaland fagnar einu markanna gegn Augsburg. AFP

Þótt norska ungstirnið Erling Braut Haaland hafi skorað þrennu sem varamaður í fyrsta leik sínum með Dortmund í þýsku 1. deildinni í fótbolta um síðustu helgi er alls ekki víst að hann verði í byrjunarliðinu þegar Dortmund fær Köln í heimsókn á föstudagskvöldið.

Lucien Favre, knattspyrnustjóri Dortmund, sagði á fréttamannafundi í dag að Haaland hefði byrjað frábærlega. „Hann hefur góð áhrif í kringum sig, fer í allt af fullum krafti og vill alltaf vinna. Það er frábært að þjálfa leikmenn eins og hann. Hann  gerir alltaf svona þegar hann brennir af færi á æfingu,“ sagði Favre og greip um höfuðið.

„Það má vel vera að hann verði í byrjunarliðinu en það er alls ekki víst,“ sagði Favre og vildi ekkert gefa upp um áætlanir sínar fyrir föstudagskvöldið.

Haaland lék í 25 mínútur gegn Augsburg um síðustu helgi og skoraði þrjú mörk í leik þar sem Dortmund sneri blaðinu við eftir að hafa lent 3:1 undir og vann að lokum 5:3.

mbl.is