Sótti fyrrverandi lærisvein til Chelsea

Victor Moses er kominn til Ítalíu.
Victor Moses er kominn til Ítalíu. AFP

Victor Moses er genginn til liðs við ítalska knattspyrnufélagið Inter Mílanó en þetta staðfesti félagið á Twitter-síðu sinni í dag. Moses skrifar undir lánssamning sem gildir út tímabilið en hann kemur til félagsins frá Chelsea. Inter á svo forkaupsrétt næsta sumar á þessum 29 ára gamla kantmanni.

Moses gekk til liðs við Chelsea árið 2012 þegar hann kom frá Wigan Athletic. Honum tókst hins vegar aldrei að festa sig í sessi hjá félaginu, nema undir stjórn Antonio Conte, sem nú stýrir Inter Mílanó. Saman unnu þeir ensku úrvalsdeildina tímabilið 2016-17, og ensku bikarkeppnina ári síðar.

Moses var lykilmaður í liði Chelsea þegar Conte var við stjórnvölinn á Stamford Bridge en þegar Ítalinn var rekinn frá Chelsea, sumarið 2018, missti Moses sæti sitt í liðinu. Hann hefur verið lánaður til Liverpool, Stoke, West Ham og nú síðast Fenerbahce í Tyrklandi á tíma sínum hjá Chelsea en hann á að baki 38 landsleiki fyrir Nígeríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert