Draumabyrjunin hélt áfram

Erling Braut Haaland fagnar í gærkvöldi.
Erling Braut Haaland fagnar í gærkvöldi. AFP

Draumabyrjun norska knattspyrnutáningsins Erling Haaland hjá Dortmund í Þýskalandi hélt áfram í gærkvöldi en hann er nú fyrsti leikmaðurinn í sögu félagsins til að skora fimm mörk í tveimur fyrstu deildarleikjunum.

Haaland, sem gekk til liðs við Dortmund frá Salzburg í Austurríki um áramótin, kom inn af varamannabekknum í fyrsta leik gegn Augsburg um síðustu helgi og skoraði þrennu á rúmum tuttugu mínútum. Hann byrjaði aftur á bekknum í gær en kom inn á 65. mínútu, í stöðunni 3:1 fyrir Dortmund gegn Köln, og skoraði tvö mörk. Lokatölur 5:1.

Haaland er aðeins 19 ára gamall en hann skoraði 28 mörk í 22 leikjum hjá Salzburg fyrir áramót áður en Dortmund keypti hann á 17 milljónir punda.

Hann er nú búinn að skora 33 mörk á tímabilinu eða að meðaltali eitt á 46 mínútna fresti. Hjá Dortmund skorar hann eftir hverjar fimm mínútur.

mbl.is