Fimm skoruðu fyrir Bayern í sannfærandi sigri

Thomas Müller skorar í dag. Robert Lewandowski fylgist með.
Thomas Müller skorar í dag. Robert Lewandowski fylgist með. AFP

Bayern München átti ekki í miklum vandræðum með að vinna 5:0-heimasigur á Schalke í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Bayern er nú aðeins einu stigi frá toppliði Leipzig. 

Robert Lewandowski skoraði fyrsta markið strax á sjöttu mínútu og er hann kominn með 21 mark í aðeins 19 deildarleikjum. Thomas Müller bætti við öðru marki i uppbótartíma fyrri hálfleiks og var staðan í hálfleik 2:0. 

Leon Goretzka bætti við þriðja markinu á 50. mínútu og átta mínútum síðar skoraði Thiago fjórða mark Bayern. Meistararnir voru ekki hættir því Serge Gnabry bætti við fimmta markinu á 89. mínútu og þar við sat. 

Bayern er í öðru sæti með 39 stig, einu stigi á eftir Leipzig sem tapaði fyrir Frankfurt fyrr í dag. Schalke er í fimmta sæti með 33 stig. 

mbl.is