Toppliðið tapaði óvænt - Alfreð sneri aftur

Alfreð Finnbogason sneri aftur í lið Augsburg eftir meiðsli.
Alfreð Finnbogason sneri aftur í lið Augsburg eftir meiðsli. AFP

Spennan á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta jókst í dag er topplið RB Leipzig tapaði á útivelli gegn Frankfurt, 0:2. Tapið var það fyrsta hjá Leipzig síðan 26. október. 

Almamy Touré kom Frankfurt yfir á 48. mínútu áður en Filip Kostic skoraði annað markið í uppbótartíma og þar við sat. Þrátt fyrir tapið er Leipzig enn með tveggja stiga forskot á toppnum en Frankfurt er í níunda sæti. 

Borussia Mönchengladbach fór upp í annað sætið með 3:1-sigri á Mainz á heimavelli. Robin Quaison kom Mainz yfir en Alassane Pléa svaraði fyrir Gladbach með tveimur mörkum, áður en Florian Neuhaus kórónaði 3:1-sigur. 

Þá vann Union Berlin 2:0-heimasigur á Augsburg. Alfreð Finnbogason lék síðustu 13 mínúturnar með Augsburg. Var hann að leika fótbolta í fyrsta skipti síðan 14. nóvember, er hann fór úr axlarlið í landsleik gegn Tyrklandi ytra. 

Samúel Kári Friðjónsson var allan tímann á varamannabekk Padeborn sem vann 2:0-útisigur á Freiburg. Padeborn er í 17. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert