Fyrsti leikur Alfreðs í hálfan þriðja mánuð

Alfreð Finnbogason í búningi Augsburg.
Alfreð Finnbogason í búningi Augsburg. Ljósmynd/Augsburg

Alfreð Finnbogason landsliðsmaður í knattspyrnu lék sinn fyrsta leik í tvo og hálfan mánuð í gær þegar Augsburg sótti heim Union Berlín í þýsku 1. deildinni.

Alfreð slasaðist á öxl í landsleik Íslands og Tyrklands í Istanbúl 14. nóvember, þegar hann þurfti að fara af velli eftir rúmlega 20 mínútna leik, og hefur ekki spilað síðan  þar til í gær þegar honum var skipt inná á 77. mínútu. Hann missti af sjö leikjum Augsburg í deildinni á þeim tíma.

Alfreð náði ekki að setja mark sitt á leikinn, staðan var 2:0 fyrir Union Berlín þegar hann mætti til leiks og það urðu lokatölurnar. Augsburg er í 12. sæti af 18 liðum í deildinni með 23 stig.

Samúel Kári Friðjónsson kom í fyrsta sinn inn í hóp Paderborn eftir að félagið keypti hann af Vålerenga á dögunum. Hann sat allan tímann á bekknum þegar Paderborn vann óvæntan útisigur á Freiburg, 2:0, og komst með því úr botnsætinu í fyrsta skipti á tímabilinu. Paderborn er nú í 17. sæti með 15 stig, tveimur stigum á eftir Werder Bremen sem er í sextánda sætinu, sem er umspilssæti.

RB Leipzig er með eins stigs forskot á Bayern München á toppi þýsku 1. deildarinnar, með 40 stig gegn 39, en Leipzig tapaði 2:0 fyrir Eintracht Frankfurt í gær á meðan Bayern burstaði Schalke, 5:0. Mönchenbladbach er með 38 stig í þriðja sætinu eftir 3:1-sigur á Mainz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert